Vellíðan á vinnustöðum

Við verjum stórum hluta ævinnar í vinnunni og rannsóknir sýna að umtalsverður ávinningur er fyrir stjórnendur og starfsfólk þegar markvisst er unnið að því að bæta líðan og samskipti á vinnustað. Undanfarin áratug hefur vinnustaðatengd streita aukist jafnt og þétt en þó sérstaklega undanfarin tvö ár, eins og kemur fram í skýrslu Gallups um ástand vinnumarkaða á heimsvísu: State of the Global Workplace: 2023 Report.

Samfara þessari þróun aukast vandamál tengd streitu meðal starfsfólks og stjórnenda en algeng einkenni streitu á vinnustað eru minni afköst, skert starfsgeta og einbeiting, fálæti, baktal, pirringur, vanlíðan, auknar veikindafjarvistir og skert geta til að takast á við verkefni og áskoranir.

Starfsfólk upplifir streitu meðal annars vegna:

  • Skorts á getu til að hafa áhrif á vinnuaðstæður
  • Langir vinnudagar
  • Einelti og áreiti
  • Skorts á stuðningi eða viðurkenningu frá yfirmanni og samstarfsfólki
  • Óskýrar og/eða óraunhæfar kröfur
  • Lélegri eða vangetu stjórnenda til að taka ákvarðanir
  • Tímapressa og álag
  • Óskýr verkaskipting
  • Skortur á samskiptum
  • Ágreiningur og deilur

Langvarandi streita hefur veruleg áhrif á líkamlega og andlega heilsu fólks og má þar nefna svefntruflanir, kvíði, hjarta og æðasjúkdómar ásamt stoðkerfisverkjum og vöðvabólgu.

Til þess að taka á þessari þróun þarf að huga að hvað dragi úr streituvaldandi þáttum á vinnustað og hvernig getum við stutt við þá þætti sem auka vellíðan á vinnustað.

Góð samskipti og félagslegur stuðningur frá yfirmanni og samstarfsfólki geta dregið úr streitu og aukið starfsánægju. Vinnustaðir þurfa markvisst að efla samkennd og skilning milli ólíkra hópa. Yfirmenn þurfa að huga vel að því að jafnvægi ríki milli vinnu og einkalífs og hvetja til þess að fólk taki stuttar pásur yfir vinnudaginn. Mikilvægt er að vinnustaðir leggi rækt við jákvæð samskipti og að vinnustaðamenningin einkennist af samvinnu, samkennd og jákvæðni.

Rannsóknir benda til að núvitund á vinnustöðum geti stuðlað að bættu starfsumhverfi, dregið úr streitu, haft jákvæð áhrif á samskipti, bætt heilsu og almenna líðan starfsfólks. Það eru sterkar vísbendingar um að núvitundaræfingar þar sem áhersla er lögð á samkennd séu afar áhrifaríkar þegar kemur að því að bæta almenna líðan og draga úr þeirri tilfinningu að verkefni séu yfirþyrmandi. Sýnt hefur verið fram á að með því að rækta með sér samkennd er fólk líklegra til að mæta mistökum af yfirvegun og er fljótara til að fyrirgefa, hvort sem mistökin eru hjá manni sjálfum eða öðrum.

Frekari upplýsingar og heimildir:
  • Aðferðir til að draga úr streitu: Heilsuvera
  • Analyzing the stress management intervention impacting the mindfulness and well-being of employees: ResearchGate
  • Cultivating Compassion for Resilience and Wellbeing: Applications for Individuals and Workplaces: ResearchGate
  • Give Yourself a Break: The Power of Self-Compassion: Harvard Business Review
  • Heilsufar og kreppa: Stjórnarráð Íslands
  • Job stress: A systematic literature review: ResearchGate
  • Mindfulness-Based Programs in the Workplace: a Meta-Analysis of Randomized Controlled Trials: ResearchGate
  • Perceptions of work stress causes and effective interventions in employees working in public, private and non-governmental organisations: a qualitative study: NCBI
  • Skiptir félagslegur stuðningur á vinnustað máli? Tengsl félagslegs stuðnings, starfsánægju, eineltis og áreitni á vinnustað: Efnahagsmál
  • State of the Global Workplace: 2023 Report: Gallup
  • Tengsl streituvaldandi þátta í starfsumhverfi, svefns og stoðkerfisverkja hjá millistjórnendum í opinberri þjónustu: Opin vísindi