Hugleiðsla nýtur sífellt meiri vinsælda meðal almennings á vesturlöndum. Fjölmargar rannsóknir sýna fram á margvíslegan ávinning af reglulegri iðkun hugleiðsluæfinga á andlega og líkamlega heilsu fólks
Íhugun og hugleiðsla á sér rætur í fjölda trúarbragða og heimspekikerfa en hér verður fjallað um ræturnar sem liggja til Vedaritana og í jóga sútrur Patanjali. Hugtakið hugleiðsla er oft notað yfir mismunandi aðferðir eða tækni sem beitt er við iðkunina, svo sem íhugun, einbeitingaræfingar eða að fara með möntrur og jafnvel er talað um að þessi eða hin aðferðin hafi áhrif á ólíka þætti daglegs lífs. Samkvæmt Vedaritunum er markmið hugleiðslu að ná tengingu við sinn innri kjarna, það er, sitt innra æðra sjálf og þá eru hverjar þær aðferðir sem miða að því markmiði í raun hugleiðsluæfingar.
Samkvæmt jóga sútrum Patanjali er hugleiðsla (Dhyana) ástand sem kemur í kjölfar einbeitingar (Dharana) og einbeiting kemur í kjölfar þess að við höfum fært athyglina frá öðru áreiti (Pratyahara). Hugleiðsla er þannig afleiðing af því að beina huganum meðvitað í ákveðna átt, t.d. að andardrættinum, að möntrum, að hljóðum eða að öðrum líkamlegum skynjunum og hugsunum. Ein aðferð við að skilja á milli hugleiðslu og einbeitingar er að hugsa sér að hugleiðsla er eins og flæði olíu en einbeiting eins og óstöðugur straumur vatns. Af þessu má ráða að til að ná hugleiðsluástandi þarf að þjálfa hugann með einbeitingaræfingum og í gegnum árþúsundin hafa þróast margvíslegar aðferðir í þessari hugarþjálfun og er núvitund ein þeirra. Þegar viðfangsefni hugleiðslunnar, t.d. andardrátturinn, rennur saman í vitundinni í eina allsherjar skynjun er talað um að viðkomandi sé í Samadhi, eða alsælu.
Hugleiðsla er leið til að færa hugann frá hinum ytri veruleika að hinum innri og þaðan dýpra inn að okkar innra æðra sjálfi. Okkar innri veruleiki geymir hugann, það er sjálfsmynd okkar, hugsanir, minningar, skynjun og tilfinningar. Þessi innri veruleiki er síbreytilegur líkt og ytri veruleikinn en innra æðra sjálfið sem er handan beggja þessara veruleika er vakandi óbreytanleg vitund. Markmið hugleiðslu er að dvelja í þessari djúpu innri vitund þar sem fjarlægð er náð á ytra og innra áreiti og djúpur friður er umlykjandi (Samadhi).
Áhrif hugleiðslu
Áhrif hugleiðslu á líkama og huga hafa mikið verið rannsökuð og sýnt hefur verið fram á að iðkun dregur úr streitu og kvíða, og líkur á hjarta og æðasjúkdómum minnka verulega. Sara Lazar og Richard Davidsson hafa stundað áralangar rannsóknir á áhrif hugleiðslu á heilann og hafa rannsóknir þeirra meðal annars sýnt fram á að starfsemi framheilans styrkist en það er svæði heilans sem hefur með minni, tilfinningar og hegðun að gera. Eins hafa rannsóknir sýnt fram á að með átta vikna daglegri iðkun getur amygdalan minnkar, en það er svæði í heilanum sem hefur með kvíða, ótta og streitu að gera. Enn fremur hafa rannsóknir sýnt fram á að hugleiðsla eflir ónæmiskerfi líkamans.
Heimildir og nánari upplýsingar
Light on the Yoga Sutras of Patanjali, B.K.S Iyengar
Alterations in brain and immune function produced by mindfulness meditation https://pubmed.ncbi.nlm.nih.gov/12883106
Mindfulness practice leads to increases in regional brain gray matter density
Harvard neuroscientist: Meditation not only reduces stress, here’s how it changes your brain. https://www.washingtonpost.com/news/inspired-life/wp/2015/05/26/harvard-neuroscientist-meditation-not-only-reduces-stress-it-literally-changes-your-brain
Meditation: Process and effects: https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC4895748/#ref7

