Vaxandi skilningur er meðal fólks og fræðimanna á að mörg þeirra vandamála sem steðja að heiminum í dag hvort sem er í umhverfis og loftslagsmálum, vegna ófriðar og stríðsátaka, einmannaleika, streitu eða ójöfnuðar sé í raun endurspeglun á óróleika og ójafnvægi sem býr innra með manneskjunni. Þessi innri krísa á að hluta til uppruna sinn í þeirri orðræðu að hugurinn sé aðskilin frá líkamanum, að manneskjur séu aðskildar og óháðar hvor annarri, að sumar manneskjur séu æðri öðrum og þeirri hugmynd að maðurinn sé aðskilinn frá náttúrunni og sé henni jafnvel æðri. Við getum séð þessa hugsun endurspeglast í daglegu lífi, sem oft einkennist af miklu álagi, virðingaleysi og jafnvel óþoli gagnvart skoðunum annara og sífellt er gengið á auðlindir jarðar. Með öðrum orðum þá er álag og áníðsla að sliga manneskjur, samfélag og náttúru og er einn þáttur í ósjálfbærni, óhamingju, ófriði og ójöfnuði. Til að takast á við þann fjölþætta vanda sem heimurinn stendur frammi fyrir þarf að verða viðsnúningur frá þeim hugsunarhætti sem leitt hefur mannkynið inn á þessa braut. Vísindalegar rannsóknir benda til að með því að leggja rækt við innri gildi mannlegseðlis á borð við samkennd, heilindi og virðingu sé hægt að stuðla að þeim umbreytingum sem nauðsynlegar eru til að takast á við þær áskoranir sem mannkynið stendur frammi fyrir.
Núvitund er ein þeirra sannreyndra aðferða sem hægt er að nota til að koma á dýpri tengingu við okkur sjálf og rækta með okkur hugarfar sem raunverulega hefur jákvæð áhrif á líf okkar og líðan. Sameinuðu þjóðirnar hafa fjallað um að núvitund geti hjálpað til við að ná heimsmarkmiðunum og sífellt fleiri rannsóknir sýna fram á að núvitund er undiralda breytinga. Í skýrslunni Reconnection: Meeting the Climate Crisis Inside Out er fjallað um hvernig núvitundar- og samkenndaræfingar geta komið að gagni í að koma á tengingu við okkur sjálf, aðra og við náttúruna og þannig tekist á við rót vandans.
Nánari upplýsingar og heimildir:
Revolutionising sustainability leadership and education: addressing the human dimension to support flourishing, culture and system transformation: https://link.springer.com/article/10.1007/s10584-023-03636-8#Abs1

