Nýsköpun og núvitund

Rannsóknir sýna að núvitund hefur jákvæð áhrif á nýsköpun, ein ástæðan er að núvitund þjálfar hugann í að ná ákveðinni fjarlægð og skoða viðfangsefni með forvitni frá ólíkum sjónarhornum.

Sýnt hefur verið fram á hvernig núvitundaræfingar geta aukið einbeitingu, eflt sköpunargáfu, sjálfsstjórn og bætt ákvarðanatöku. Núvitund felur í sér að taka eftir því sem á sér stað þá stundina, með opnum huga. Markmið núvitundar er ekki að hreinsa hugann af hugsunum heldur miklu frekar að taka eftir þeim og byrja að þekkja eigin hugsanamynstur og viðbrögð, hvort sem við lítum þau jákvæðum eða neikvæðum augum. Næmni gagnvart því sem á sér stað í huganum eykst við iðkun núvitundar, eins og hvaða hugsanir koma í kjölfar áreitis og hvernig líkaminn og hugurinn bregðast við þessum hugsunum.

Skýr hugur er móttækilegri fyrir nýjum hugmyndum og óhefðbundnum lausnum. Forvitni, ímyndunarafl og lausnamiðuð hugsun ásamt þolinmæði drífa nýsköpun og frumkvöðlastarf áfram. Allt eru þetta þættir sem eflast við iðkun núvitundar það getur því verið áhrifaríkt fyrir fyrirtæki og stofnanir sem vinna í nýsköpun eða öðru skapandi starfi, að hlúa að þessum þáttum í vinnuumhverfinu. Rannsóknir hafa jafnvel sýnt fram á að jákvætt samband er á milli núvitundar og umhverfisvænna lausna í nýsköpun.

Sífellt fleiri fyrirtæki og stofnanir bjóða upp á núvitundariðkun á vinnutíma. Sem dæmi má nefna að breska þingið hefur í áraraðir boðið upp á núvitundarstundir og Google þróaði eigið núvitundarnámskeið. Þátttakendur tala um að eftir námskeiðið eigi þeir auðveldara með að setja sig í spor annarra, hafa meiri einbeitingu, hugarró og þolinmæði.

Stjórnendur sem iðka núvitund sýna af sér betri samskipta -og samvinnuhæfni. Núvitund þjálfar virka hlustun sem hefur mikla þýðingu þegar kemur að sætta ólík sjónarmið. Það er margsannað að núvitund er öflug aðferð við að draga úr streitu sem oft á tíðum er fylgifiskur frumkvöðlastarfs. Æfingar á borð við samkennd og gæska í eigin garð hjálpa einnig til við okkar innra samtal, hvernig við tölum við okkur sjálf þegar við gerum mistök eða stöndum frammi fyrir erfiðleikum.

Núvitund getur því verið mikilvæg þjálfun þegar kemur að þróunarstarfi fyrirtækja og því að efla skapandi hugsun og hugmyndaauðgi hjá stjórnendum og starfsfólki.

Frekari upplýsingar og heimildir: